Haustblær

Þetta eru skrítnir dagar. Kreppan dynur á fólki og maður veit varla í hvorn fótinn maður á að stíga, fara í Bónus og byrgja sig upp upp af þurrvöru, taka slátur og frysta mjólk eða bara  slaka á og hugsa þetta reddast. Þetta hefur nú reddast hingað til og ég ætla að halda áfram að hugsa þannig aðeins lengur.

Ofan á allt saman þá dó þvottavélin okkar, hún áttaði sig greinilega ekki á því að við erum í kreppu. Okkur tókst að ná í sýningareintak af þvottavél í búðinni, lá nærri við slagsmálum því við vorum greinilega ekki þau einu sem misstum þvottavél í kreppunni.

 Lífið heldur áfram og það er bara að horfa á björtu hliðarnar og spila bingó. Verðlaunin þurfa ekki að að vera svo merkileg.


Handboltaspenna í hámarki

Ég vaknaði í gærmorgun til að horfa á leikinn, það þarf ansi mikið til að ná mér fram úr rúminu þessa dagana en þetta var svo sannarlega þess virði.

Spennan gerist varla meiri og frábært að sjá hvað íslenska liðið , "strákarnir okkar" eru flottir og láta ekki deigann síga. Viðtalið við Ólaf eftir leikinn var eftirminnilegt, hann sagði huga liðsins hafa allt að segja í keppni sem þessari. Liðið sé eins og á leið upp fjall og það sé bara tvennt í boði, annaðhvort að sigra og komast ofar í fjallið eða BLÍBB - allt búið. Ég trúi að þeir fari enn ofar í fjallið og fari á toppinn. ÁFRAM ÍSLAND!

Hinrik vaknaði í morgun með andfælum, hann var að sofa yfir sig og var búinn að missa af leiknum. Þvílíkur léttir þegar hann áttaði sig á að leikurinn er á morgun og hann þarf ekki að vakna eldsnemma :-)


Friðsæld í Djúpafirði

Þá er sumarfríið senn á enda og ekki laust við að ég sé orðin spennt og full tilhlökkunar að byrja í nýju vinnunni. Orðin verulega pirruð á verkefnaleysi en reyni að fá sem mesta útrás í ræktinni.

Fórum reyndar vestur á Firði í nokkra daga, heimsóttum Djúpafjörð sem er næsti fjörður eftir Þorskafjörð. Djúpifjörður er einstaklega fallegur og friðsæll staður. Vorum í bústað sem kominn er til ára sinna, ekkert sjónvarp og ekkert símsamband. Mjög sérstakt, dálítið vont fyrst en vandist vel. Hilmar fór í bæinn í tvo daga og tilfinningin að vera án bíls, síma og sjónvarps var dálítið sérstök - en fyrir örfáum árum síðan hefði það nú ekki talist vera mikið mál og var það heldur ekki.

Veðrið var frábært allan tímann en þó var farið að kólna talsvert. Allt krökkt af krækiberjum og bláberin voru öll að koma til. Kvöldum var eytt við spilaborðið en á daginn könnuðum við svæðið, fórum í fótboltaþjálfun Hinriks og lásum sannar og lognar sögur um fræknar hetjur.

Á milli þess skimuðum við eftir Erni sem skv. áreiðanlegum heimildum á sér hreiður í nágrenninu, hann lét nú ekki sjá sig en hins vegar sveimaði Fálki um svæðið og Skúmurinn gargaði sem vitlaus væri.


Sumarfrí í Barcelóna

Fjórða júlí héldum við af stað í sumarfrí til Katelóníu og Frakklands.
Flugið til Barcelóna gekk vel, Hákon rosalega spenntur fyrir öllu sem tengist flugvöllum en ekkert gengur nógu hratt fyrir hann. Bið eftir að tékka inn, bið eftir flugi, bið eftir að fara í loftið, bið bið bið. Bið eftir töskum og síðan leigubíl í Barcelóna en loks komumst við í íbúðina en þar tók á móti okkur Giuseppe nokkur. Við fengum senda mynd af honum þannig að það fór ekkert á milli mála hver stóð við dyr númer 24, við Carrer Portal Nou. Hann var mjög indæll og sagði okkur frá því helsta sem borgin býður upp á og hvað ber að varast, sérstaklega vasaþjófana sem geta verið lúnknir. Við drifum okkur fljótlega út enda allir svangir og ekkert annað að gera en að panta tapas á barnum á horninu. Síðan fóru að streyma diskar á borðið, allt of mikið og því miður voru strákarnir ekki par hrifnir, nema Hákon þegar Serrano hráskinkan birtist. Hún rann ljúflega niður. Hákon greyið var þá komin með bólur sem við héldum fyrst að væru rakabólur en þeim fjölgaði hratt og þá kom í ljós að blessaður var kominn með hlaupabóluna, ekki alveg það skemmtilegasta í sumarfríinu en auðvitað var ekkert annað að gera en taka því, fara í apótek og ná í krem og bíða þess sem koma skyldi.

Íbúðin var alveg ágæt, vel búin en bara með glugga/svalir í eina átt, þ.e. út á götuna, reyndar voru tveir aðrir gluggar sem snéru út að þröngum portum sem lyktuðu herfilega :-( Gatan er annars smart, mikið líf, þröng, stutt á milli húsa og freistandi að virða fyrir sér svalir og það sem leyndist á bak við tjöldin sem oftar en ekki voru frádregin. Svalir húsanna mjög litlar og aðeins pláss fyrir einn stól og risavaxna stjórnstöð loftkælingarinnar. Eldri maður sást oft sitja á svölum handan götunnar en konan var ætíð innan dyra. Síðan bjó tónlistarmaður ofar í húsinu, gítarinn hékk á veggnum, frá íbúðinni bárust margs konar tónar, flamíngótónlist, þungarokk, Beethoven og allt þar á milli, síðan heyrðist hátt í fjölskyldu sunnudagsmatarboði, mikið hlegið og glamur í diskum og glösum, ég hefði gjarnan viljað vera fluga á vegg.

Næstu tveir dagar liðu í miklum rólegheitum, næturnar erfiðar hjá Hákoni, við sárvorkenndum honum, settum hann í sturtu um miðjar nætur til að minnka kláðann. Ekki bætti hitastigið sem var um 28 gráður á daginn. Við Hinrik fórum í göngu um gotneska hverfið þar sem er fullt af litlum og spennandi búðum, stoppuðum á Placa Real og fylgdumst með mannlífinu og enduðum á Römblunni sem virtist frekar óspennandi. Hinrik var dolfallinn yfir öllum Barcelona fótboltabúðunum og vildi fara inn í hverja einustu. Hilmar fór síðan með Hinrik á sjóminjasafn við höfnina sem var mjög skemmtilegt en Hákon fékk sér langan lúr meðan þeir voru í leiðangrinum.

7. júlí mánudagur.
Hákon að ná heilsu að nýju, við mæltum okkur mót við Öddu, Emil og Stefaníu í dýragarðinum en þau fóru út með sömu vél og við. Hákon var glaður að komast út en hitinn var mjög þægilegur og á heimleiðinni fengum við okkur Pizzu á Paco pizzum en hjá staðnum eru barnaleiktæki sem voru vinsæl hjá strákunum. Fólk horfði á Hákon og spurði hvort hann hefði verið bitinn svona illa. Aumingja barnið.

Mamma á afmæli í dag og ég hringi í hana til að óska henni til hamingju með daginn, Matta og Þórdís höfðu þá verið hjá henni og mætt með afmælisköku. Hún hefur aldrei neitt á móti sætindum :-)

Næstu dagar liðu í blöndu af leti og skoðunarferðum, heimsóttum Sædýrasafnið/Aquarium, fór með Öddu í verslunarferð sem skilaði frekar litlu, allsstaðar útsölur og öllu hrúgað á borð eða hengi, brrr. mér finnst það leiðinlegt. Skoðuðum Monjuic og Olympiusvæðið. Fórum út að borða með Öddu og fjölskyldu, fórum í Tibidabo garðinn sem er heilmikið ferðalag, metró, lest, sporvagn og kláfur og enduðum í Parísarhjólinu á en þaðan er frábært útsýni yfir borgina.

Hinrik var búin að fá alveg nóg af flakki og vildi bara vera heima í leti (í tölvuspilinu). Við fengum hann þó reglulega upp úr sófanum og síðasta daginn settumst við í túristastrætó, sáum m.a. Gaudi byggingar og garðinn. Hápunkturinn hjá Hinrik var að koma á Port Nou svæði FC Barcelóna liðsins. Þar keyptum við búninga fyrir strákana sem kosta heldur betur sitt - en þvílík hamingja :-)

Laugardaginn 12. júlí yfirgáfum við Barcelóna, fengum bílaleigubíl og keyrðum til Coillure með viðkomu í Tossa de Mar þar sem við fengum hádegismat.

Meira síðar.


Smá saga eftir Hinrik Aron

Höfundur Hinrik Aron Hilmarsson
Sagan af stráknum og bangsanum hans 

20.mai 2008

Einu sinni var strákur sem átti bangsa bangsinn var lifandi en strákurin vissi ekkert af því. Einn góðan veður dag sat strákurinn heima hjá sér og sagði - ég vildi að ég ætti alla bangsa í heimi. en þetta heyrði bangsinn þá sagði bangsinn-ég ætla að eiðileggja alla bangsa í heimi en þá kom strákurinn inn hann sagði- ég heirði þetta ég ætla að rífa þig eftir 10 mín. og 1 sek. Síðan lokaði hann dyrunum bangsinn vildi ekki láta rífa sig svo hann fór ofaní klósettiðog sturtaði hann sér oní. 

Endir.


Flug um flug frá flugi til flugs

Þá er ég líka komin í bloggið. Hef verið með alvarlega blogfóbíu sem ég er að komast yfir enda er þetta ágætis leið til að halda sambandi við vini og ættingja.

Annars er ég búin að vera á kafi í vinnu vegna flugvikunnar og flugdagsins sem er á laugardaginn. Mjög gaman en þvílík kleppsvinna. Hilmar var í Cannes útaf vinnunni og kom tilbaka á þriðjudag. Hann var varla kominn inn heima þegar honum og strákunum var ýtt út úr dyrunum og stormað á opið hús hjá Landhelgisgæslunni. Strákunum fannst þetta æði, þar voru sýndar þyrlur Gæslunnar, flugvélin þeirra og ýmis konar búnaður. Þ.a.m. björgunarbúnaður fyrir franska flugmenn, hann innihélt rauðvín og baguette :-) Ekki amalegt það. Svo var sýnd björgun og þyrlan flaug yfir svæðinu í lokinn.

 Í gær var svo opið hús hjá Flugstoðum, það var líka gaman. Ýmis konar spennandi tæki og farartæki sem fylgja flugvellinum. Þar var líka í boði sleikjó. Ég held að Hinrik hafi borðað fjóra! Í morgun málþing og á morgun verður síðan vígsla á Sandskeiði. Hápunkturinn er svo auðvitað flugdagurinn á laugardag. Hinrik treystir á að fá líka sleikjó þar :-)

Á morgun er skipulagsdagur á leikskólanum þannig að Hákon fær að vera með mér í vinnunni, bara stemmning það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband