Friðsæld í Djúpafirði

Þá er sumarfríið senn á enda og ekki laust við að ég sé orðin spennt og full tilhlökkunar að byrja í nýju vinnunni. Orðin verulega pirruð á verkefnaleysi en reyni að fá sem mesta útrás í ræktinni.

Fórum reyndar vestur á Firði í nokkra daga, heimsóttum Djúpafjörð sem er næsti fjörður eftir Þorskafjörð. Djúpifjörður er einstaklega fallegur og friðsæll staður. Vorum í bústað sem kominn er til ára sinna, ekkert sjónvarp og ekkert símsamband. Mjög sérstakt, dálítið vont fyrst en vandist vel. Hilmar fór í bæinn í tvo daga og tilfinningin að vera án bíls, síma og sjónvarps var dálítið sérstök - en fyrir örfáum árum síðan hefði það nú ekki talist vera mikið mál og var það heldur ekki.

Veðrið var frábært allan tímann en þó var farið að kólna talsvert. Allt krökkt af krækiberjum og bláberin voru öll að koma til. Kvöldum var eytt við spilaborðið en á daginn könnuðum við svæðið, fórum í fótboltaþjálfun Hinriks og lásum sannar og lognar sögur um fræknar hetjur.

Á milli þess skimuðum við eftir Erni sem skv. áreiðanlegum heimildum á sér hreiður í nágrenninu, hann lét nú ekki sjá sig en hins vegar sveimaði Fálki um svæðið og Skúmurinn gargaði sem vitlaus væri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband