Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
Sumarfrí í Barcelóna
21.7.2008 | 16:37
Fjórða júlí héldum við af stað í sumarfrí til Katelóníu og Frakklands.
Flugið til Barcelóna gekk vel, Hákon rosalega spenntur fyrir öllu sem tengist flugvöllum en ekkert gengur nógu hratt fyrir hann. Bið eftir að tékka inn, bið eftir flugi, bið eftir að fara í loftið, bið bið bið. Bið eftir töskum og síðan leigubíl í Barcelóna en loks komumst við í íbúðina en þar tók á móti okkur Giuseppe nokkur. Við fengum senda mynd af honum þannig að það fór ekkert á milli mála hver stóð við dyr númer 24, við Carrer Portal Nou. Hann var mjög indæll og sagði okkur frá því helsta sem borgin býður upp á og hvað ber að varast, sérstaklega vasaþjófana sem geta verið lúnknir. Við drifum okkur fljótlega út enda allir svangir og ekkert annað að gera en að panta tapas á barnum á horninu. Síðan fóru að streyma diskar á borðið, allt of mikið og því miður voru strákarnir ekki par hrifnir, nema Hákon þegar Serrano hráskinkan birtist. Hún rann ljúflega niður. Hákon greyið var þá komin með bólur sem við héldum fyrst að væru rakabólur en þeim fjölgaði hratt og þá kom í ljós að blessaður var kominn með hlaupabóluna, ekki alveg það skemmtilegasta í sumarfríinu en auðvitað var ekkert annað að gera en taka því, fara í apótek og ná í krem og bíða þess sem koma skyldi.
Íbúðin var alveg ágæt, vel búin en bara með glugga/svalir í eina átt, þ.e. út á götuna, reyndar voru tveir aðrir gluggar sem snéru út að þröngum portum sem lyktuðu herfilega :-( Gatan er annars smart, mikið líf, þröng, stutt á milli húsa og freistandi að virða fyrir sér svalir og það sem leyndist á bak við tjöldin sem oftar en ekki voru frádregin. Svalir húsanna mjög litlar og aðeins pláss fyrir einn stól og risavaxna stjórnstöð loftkælingarinnar. Eldri maður sást oft sitja á svölum handan götunnar en konan var ætíð innan dyra. Síðan bjó tónlistarmaður ofar í húsinu, gítarinn hékk á veggnum, frá íbúðinni bárust margs konar tónar, flamíngótónlist, þungarokk, Beethoven og allt þar á milli, síðan heyrðist hátt í fjölskyldu sunnudagsmatarboði, mikið hlegið og glamur í diskum og glösum, ég hefði gjarnan viljað vera fluga á vegg.
Næstu tveir dagar liðu í miklum rólegheitum, næturnar erfiðar hjá Hákoni, við sárvorkenndum honum, settum hann í sturtu um miðjar nætur til að minnka kláðann. Ekki bætti hitastigið sem var um 28 gráður á daginn. Við Hinrik fórum í göngu um gotneska hverfið þar sem er fullt af litlum og spennandi búðum, stoppuðum á Placa Real og fylgdumst með mannlífinu og enduðum á Römblunni sem virtist frekar óspennandi. Hinrik var dolfallinn yfir öllum Barcelona fótboltabúðunum og vildi fara inn í hverja einustu. Hilmar fór síðan með Hinrik á sjóminjasafn við höfnina sem var mjög skemmtilegt en Hákon fékk sér langan lúr meðan þeir voru í leiðangrinum.
7. júlí mánudagur.
Hákon að ná heilsu að nýju, við mæltum okkur mót við Öddu, Emil og Stefaníu í dýragarðinum en þau fóru út með sömu vél og við. Hákon var glaður að komast út en hitinn var mjög þægilegur og á heimleiðinni fengum við okkur Pizzu á Paco pizzum en hjá staðnum eru barnaleiktæki sem voru vinsæl hjá strákunum. Fólk horfði á Hákon og spurði hvort hann hefði verið bitinn svona illa. Aumingja barnið.
Mamma á afmæli í dag og ég hringi í hana til að óska henni til hamingju með daginn, Matta og Þórdís höfðu þá verið hjá henni og mætt með afmælisköku. Hún hefur aldrei neitt á móti sætindum :-)
Næstu dagar liðu í blöndu af leti og skoðunarferðum, heimsóttum Sædýrasafnið/Aquarium, fór með Öddu í verslunarferð sem skilaði frekar litlu, allsstaðar útsölur og öllu hrúgað á borð eða hengi, brrr. mér finnst það leiðinlegt. Skoðuðum Monjuic og Olympiusvæðið. Fórum út að borða með Öddu og fjölskyldu, fórum í Tibidabo garðinn sem er heilmikið ferðalag, metró, lest, sporvagn og kláfur og enduðum í Parísarhjólinu á en þaðan er frábært útsýni yfir borgina.
Hinrik var búin að fá alveg nóg af flakki og vildi bara vera heima í leti (í tölvuspilinu). Við fengum hann þó reglulega upp úr sófanum og síðasta daginn settumst við í túristastrætó, sáum m.a. Gaudi byggingar og garðinn. Hápunkturinn hjá Hinrik var að koma á Port Nou svæði FC Barcelóna liðsins. Þar keyptum við búninga fyrir strákana sem kosta heldur betur sitt - en þvílík hamingja :-)
Laugardaginn 12. júlí yfirgáfum við Barcelóna, fengum bílaleigubíl og keyrðum til Coillure með viðkomu í Tossa de Mar þar sem við fengum hádegismat.
Meira síðar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)